Breytingar hjá Bjórskóla Ölgerðarinnar

Bjórskóli Ölgerðarinnar fagnar 10 ára starfsafmæli um þessar mundir. Stofnun hans og starfræksla í tengslum við Gestastofu Ölgerðarinnar markaði tímamót í bjórmenningarlífi landsins og átti stóran þátt í að bæta úr tilfinnanlegum skorti á íslenskum hefðum, siðum og venjum tengdum bjór og öli eftir áratugalanga útskúfun bannáranna. Frá upphafi var markmið Bjórskólans að auka almenna þekkingu á bjór og bjórgerð og undanfarinn áratug hafa yfir 30.000 manns heimsótt Bjórskólann og Gestastofuna, kynnst framleiðslu og sögu bjórs og lært að meta fínni blæbrigði þessa fljótandi gulls.

 

Fræðsla fyrir atvinnufólk

Nú á tíu ára afmæli Bjórskólans teljum við að þekking á þessum grunnatriðum sé loks orðin það útbreidd á Íslandi að skólastjórnendur geti tekið þá ákvörðun að breyta Bjórskólanum úr almenningsfræðslu í bjórþjónaskóla, með það fyrir augum að veita nauðsynlega fræðslu til að þjálfa fagfólk. Þannig verður það betur í stakk búið til að framreiða bjór í hámarksgæðum og leiðbeina um val út frá mismunandi eiginleikum bjórtegunda. Það má því segja að grunnnámið í Bjórskólanum sé nú útskrifað og nú taki við bjórháskóli fyrir atvinnufólk frá og með næstu áramótum.

 

Þúsundir útskriftarnema

Bjórskólinn þakkar þúsundum útskriftarnema sinna fyrir samveruna og óskar þeim til hamingju með góðan námsárangur, ár eftir ár. Nám í Bjórskólanum hefur verið vinsælt til gjafa og eitthvað er um gild gjafabréf í umferð sem ekki hafa verið nýtt. Handhöfum þeirra er bent á að hafa samband með tölvupósti á gjaldkerar@olgerdin.is til að kanna með endurgreiðslu með eftirfarandi upplýsingum:
Nafn:
Nafn handhafa gjafabéfs:
Gjafabréfsnúmer:
Gildistími gjafabréfs:
Kennitala:
Reikningsnúmer:

Athugið að öll gjafabréf Bjórskólans gilda í ár frá útgáfudegi og þau sem eru innan við árs gömul verða endurgreidd.

Bestu þakkir og skál,
Bjórskóli Ölgerðarinnar